Hesteyri er einn af þeim stöðum sem allir verða að heimsækja. Á Hesteyri er eins og tíminn hafi staðið í stað sl. 65 ár, en þaðan fluttu síðustu íbúarnir árið 1952 en mörg húsanna standa þar enn í sinni upprunalegu mynd enda er þeim haldið við í dag sem sumarhúsum. Eitt þeirra, Læknishúsið er í dag rekið sem kaffihús með heimsins bestu nýbökuðum pönnukökum eins og margir segja, auk þess sem boðið er uppá gistingu fyrir gesti og gangandi. Oftar en ekki er boðið uppá heimsklassa tónlist í læknishúsinu en vert hússins, Hrólfur Vagnsson hefur um árabil verið talinn lang besti harmonikkuleikari landsins, en hann ásamt frúnni í Hamborg, Iris Kramer konu Hrólfs leika oft saman af þvílíkri snilld en hún er einn af betri jazz trompetleikurum heims.
Frá Hesteyri er aðeins um 30-45 mínútna gangur að Hvalstöðinni Stekkeyri sem Norðmenn byggðu 1894, en skorsteinninn stendur þar enn ásamt hluta bygginganna. Á Stekkeyri er margt að skoða, þar má líka oft sjá tófu enda er vitað um greni í gömlu þrónum. Tófan lætur líka oft sjá sig við Læknishúsið þar sem hún kemur oft á tíðum í kvöldmat.
Nálægt skólanum á Hesteyri er kirkjugarðurinn en þar er að finna minnisvarða um kirkjuna sem stolið var frá Hesteyringum í boði þáverandi biskups Íslands, Sigurbjörns Einarsson.

Ofan við Hesteyri er á vorin og frameftir sumri hægt að skoða gríðarlega fallegan íshelli sem myndast ár hvert en þangað er ca 15-30 mínútna gangur frá Hesteyri. Hesteyri er annars viðkomustaður flestra sem ganga um Hornstrandir, annaðhvort er byrjað þar, eða enda, nema hvort tveggja sé. Vinsælast er að ganga milli Hesteyrar og Aðalvíkur en auk þess er hægt að ganga yfir á Sléttu eða Hlöðuvík þar sem farið er um hið fagra Kjaransvíkurskarð.