Um Verslunarmannahelgina verður hin sívinsæla Kjötsúpuhátíð á Hesteyri haldin hátíðleg. Hátíðin fer fram laugardaginn 3. ágúst 2019 og skipulagið gæti ekki verið einfaldara. Það verður siglt frá Bolungarvík til Hesteyrar með Hauki Vagnssyni á Hesteyri ÍS 95. Siglingin tekur aðeins um klukkustund. Ef þörf krefur verður líka siglt frá Ísafirði. Hægt verður að velja á milli þriggja brottfarartíma. En fyrsti hópurinn eða svokallaður rauði hópur fer frá Bolungarvík klukkan 12 á hádegi og heim aftur klukkan 20. Í millitíðinni á Hesteyri er frjáls tími, Hesteyrarkjötsúpa í Læknishúsinu og ýmislegt fleira. Næsti hópur eða sá græni siglir klukkan 14 og heim klukkan 22. Sama verð er á þessari ferð og þeirri rauðu og gestir fá einnig pönnsur, leiki, varðeld og söng.

Seinasti hópurinn eða sá blái siglir klukkan 16 og mætir beint í kjötsúpuna á Hesteyri. Það er Hrólfur Vagnsson sem matreiðir eftir uppskrift ættmóðurinnar Birnu Hjaltalín Pálsdóttur. Eftir súpuna er boðið upp á kaffi og pönnuköku með sykri og svo verður hin skemmtilegasta dagskrá sem Pálína Vagnsdóttir stýrir. Þar verða leikir, söngur, fíflagangur og almennt glens og gaman uns gengið er í fjöru þar sem tendraður verður varðeldur og sungið fyrir hafið. Ferð með bláa hópnum er ögn dýrari en hinar þar sem með honum verður einnig boðið upp á bíósýningu á myndinni „Ég man þig“ sem byggð er á skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Sýningin hefst klukkan 22 og henni fylgir að sjálfsögðu popp og kók.

Endilega bókið tímanlega hér til hliðar þar sem um takmarkaðan sætafjölda er að ræða.
Einnig er hægt að leita sér upplýsinga hjá:
-Pálínu Vagnsdóttur í síma 848 6019
-Hauki Vagnssyni í síma 862 2221
-Hrólfi Vagnssyni í læknishúsinu í síma 899 7661